Hlutabréf í tryggingafélögunum Sjóvá, TM og Vís hafa lækkað talsvert í verði það sem af er degi. Má rekja það til stórbrunans í Skeifunni í gærkvöldi.

Mest hefur gengi bréfa í TM fallið eða um 3,24% í 55 milljóna króna viðskiptum. Eins og VB.is greindi frá fyrr í dag tryggir efnalaugin Fönn sínar fasteignir hjá TM en efnalaugin kemur mjög illa út úr brunanum.

Bréf í Sjóvá hafa lækkað um 2,80% og í Vís um 1,53%. Samtals nema viðskipti með bréf í félögunum um 170 milljónum króna það sem af er degi.