Hlutabréf í Visa hækkuðu um 28,4% í fyrradag, en á þriðjudaginn fór fyrirtækið út í frumútboð upp á tæplega 18 milljarða dollara, sem er bandarískt met.

Hlutabréf Visa voru metin á 44 dollara á þriðjudag en fóru upp í 60,6 dollara á markaðnum í gær, en það er 38% hækkun. Þegar markaðurinn lokaði var gengi þeirra 56,5 dollarar á hlut. Að sögn Reuters fréttastofunnar er ástæða þessarar miklu hækkunar, auk hlutafjárútboðsins, talin vera sú að horfur eru á að notkun kreditkorta muni aukast mikið á næstunni.

Visa er stærsta kreditkortafyrirtæki í heimi, með tæplega helmingi fleiri færslur á árinu 2007 en MasterCard.

Þrátt fyrir erfiða stöðu banka í Bandaríkjunum eru fyrirtæki á borð við Visa talin í góðri stöðu, þar sem sífellt færist í aukana að almenningur noti kreditkort til að borga sín daglegu útgjöld.