Alls lækkuðu hlutabréf þrettán félaga sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallar Íslands. Bréf sex félaga hækkuðu. Úrvalsvísitalan lækkaði eilítið og nemur nú 2.453 stigum. Heildarvelta nam 1,5 milljörðum króna í 455 viðskiptum.

Hlutabréf Icelandair lækkuðu mest í mestri veltu eða um 4,5% í 556 milljóna króna viðskiptum. Bréf flugfélagsins standa nú í 1,71 krónu. Fjöldi viðskipta var, líkt og fyrri daginn, felst með bréf Icelandair eða alls 350.

Mest hækkuðu bréf Eikar eða um 1,26% sem standa í 8,85 krónum hvert. Bréf Símans hækkuðu um ríflega eitt prósent og eru í hæstu hæðum.

Anna daginn í röð veiktist gengi krónunnar gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum, að breska pundinu undanskildu. Krónan styrktist um 0,14% gagnvart pundinu og fæst nú á tæplega 170 krónur. Evran fæst á 155 krónur og Bandaríkjadollari á 128 krónur.

Heildarvelta á skuldabréfamarkaði nam 5,5 milljörðum króna í alls 55 viðskiptum. Ávöxtunarkrafa níu skuldabréfaflokka lækkaði en krafa fjögurra flokka hækkaði. Hækkunin var þó talsvert meiri en lækkunin. Til að mynda hækkuðu óverðtryggð skuldabréf Íslandsbanka sem eru á gjalddaga 2027 um átta punkta. Téð bréf bera nú 2,84% kröfu.