*

föstudagur, 24. september 2021
Innlent 29. júlí 2021 17:07

Hlutabréf Icelandair og Play hækka

Gengi flugfélagsins Play hækkaði um 5% í dag og stendur nú í 22,6 krónum á hlut.

Ritstjórn

Landsmenn létu viðskipti með skráð bréf hjá Nasdaq Iceland lítið trufla sig í því að njóta veðurblíðunnar í dag. Alls áttu 260 viðskipti sér stað á aðalmarkaði í dag, þar af rúmlega helmingur með bréf í Icelandair og Íslandsbanka, og afar fá eftir því sem leið á daginn. Veltan var í minna fallinu eða rétt rúmir tveir milljarðar króna. 

Flugfélögin Icelandair og Play hækkuðu mest í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Gengi Icelandair hækkaði um 2,7% í 53 milljóna króna veltu og hefur nú hækkað um 5,6% frá því á mánudaginn. Það var jafnmikil velta með hlutabréf Play sem hækkuðu um 5,1% og standa nú í 22,6 krónum á hlut. 

Arion banki hækkaði um 2% í dag en bankinn birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun markaða í gær. Hagnaður Arion jókst um 60% á milli ára og nam 7,8 milljarða króna á fjórðungnum. Íslandsbanki birti einnig uppgjör í gær en gengi hans lækkaði hins vegar um 0,5% í dag. Velta með hlutabréf Íslandsbanka námu þó einungis 80 milljónum. 

Festi hækkaði um hálft prósent í dag en smásölufyrirtækið birti einnig uppgjör í gær. Það skal þó benda á að Arion, Íslandsbanki og Festi höfðu öll sent frá sér afkomuviðvörun fyrr í mánuðinum og því er ekki um að ræða fyrstu viðbrögð fjárfesta við afkomu og frammistöðu félaganna á öðrum ársfjórðungi. 

Mesta veltan var með hlutabréf Kviku banka, eða 489 milljónir, sem hækkuðu um 0,8% í dag. Síminn hækkaði einnig um 0,7% og stóð í genginu 11,65 krónum á hlut sem er nýtt met hjá fjarskiptafélaginu. Hlutabréfaverð Marels, sem náði sínu hæsta stigi frá upphafi í gær, lækkaði um hálft prósent í viðskiptum dagsins.

Fyrir áhugafólk um skuldabréfamarkaðinn þá er rétt að geta þess að þar áttu 54 milljóna viðskipti sér stað þar í dag með RIKS 26 0216. Fjöldi viðskipta, einn.