Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um 3,2% í 264 milljóna króna viðskiptum í dag. Gengi flugfélagsins hafði lækkað töluvert fram að gosinu og fór lægst í 1,76 krónur í kringum eittleytið í dag. Eftir að gosið hófst í Meradölum á Reykjanesi á öðrum tímanum í dag tók gengið að hækka og endaði daginn í 1,93 krónum. Gengi Play hækkaði einnig um 1,8% og stendur nú í 19,55 krónum.

RÚV greindi frá því að engin röskun orðið á Keflavíkurflugvelli enn sem komið er vegna gossins. Haft var eftir staðgengli upplýsingafulltrúa Isavia að öskuspá Veðurstofunnar verði skoðuð og ákvörðun tekin út frá henni hvort flugverðum verði frestað. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair sagði að gosið hafi engin áhrif á flugáætlun félagsins enn sem komið er. Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi, Play, tók í sama streng.

Eimskip í hæstu hæðum

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,4% í 2 milljarða veltu í dag. Gengi Eimskips hækkaði um 5,5%, í 287 milljóna veltu og stendur nú í 575 krónum á hlut. Hlutabréfaverð flutningafélagsins jafnar þar með fyrra met frá því í lok apríl síðastliðnum.

Þá hækkaði gengi Origo um 4,7% í nærri 150 milljóna veltu og stendur nú í 67,5 krónum á hlut.

Hlutabréf Marels lækkuðu um 0,7% í 280 milljóna viðskiptum. Gengi félagsins endaði daginn í 596 krónum.