Gengi hlutabréfa í snyrtivöruframleiðandanum Johnson & Johnson féll um rúmlega 10% síðastliðinn föstudag. Þessi lækkun átti sér stað í kjölfar fréttar Reuters þar sem því var haldið fram að snyrtivörurisinn hafi vitað af því í áratugi að vinsælt barnapúður þeirra innihéldi skaðleg efni. BBC greinir frá .

Nokkur þúsund manns hafa nú þegar farið í mál við J&J vegna þessara skaðlegu efna í barnapúðrinu og er því haldið fram að þau hafi valdið krabbameini.

Samkvæmt þeim skjölum sem Reuters rannsakaði hafa J&J vitað af þessum skaðlegu efnum, án þess að aðhafast á nokkurn hátt.

Lögmaður J&J hafnar því að barnapúður J&J innihaldi skaðleg efni og segir að umfjöllun Reuters sé einhliða og feli í sér fjarstæðukennda samsæriskenningu.