Hlutabréf á mörkuðum asíu lækkuðu nokkuð í nótt, meðan markaðir voru opnir á svæðinu mánudag.

Markaðsaðilar virðast stýrast af varkárni vegna væntinga um að olíuframleiðsluríki muni draga úr olíuframleiðslu í kjölfar fundar OPEC landanna seinna í vikunni.

Óvissa vegna kappræðna og olíuframleiðslu

Einnig eru væntanlegar forsetakappræður í Bandaríkjunum, sem verða seint á mánudagskvöldi þar í landi, að valda sumum áhyggjum, en margir markaðsaðilar óttast afleiðingar þess ef Donald Trump, sem meðal annars hefur talað gegn fríverslunarsamningum, vinni kosningarnar. Ef hann stendur sig vel í kappræðunum megi vænta aukinna sviptinga á mörkuðum.

Hlutabréf í olíufyrirtækjum og tengdum iðnaði lækkuðu jafnframt, olíuleitarfyrirtækið Inpex Corp. frá Japan sá hlutabréf í fyrirtækinu lækka um 2,32%, og á sama tíma lækkuðu bréf í kínverska olíufyrirtækinu Sinopec um 2,88% á mörkuðum í Hong Kong og olíuframleiðandinn Cnooc lækkaði um 2,22%, en fyrirtækið framleiðir olíu af hafsbotni.

Morgan Stanley væntir þess að á fundinum verði engin ákvörðun tekin um framtíð olíuvinnslu, nema að fresta ákvörðunartöku þangað til samtökin funda á ný í nóvember. Bankinn telur að áfram verði olíuverð óstöðugt.

Helstu vísitölur á svæðinu

  • Nikkei vísitalan í Japan lækkaði um 1,25%
  • Kospi vísitalan í Suður Kóreu lækkaði um 0,34%
  • Taiwan Weighted vísitalan lækkaði um 0,97%
  • Hang Seng vísitalan í Hong Kong lækkaði um 1,69%
  • FTSE China A50 vísitalan lækkaði um 1,28%
  • Dow Jones Shanghai vísitalan hefur sem af er lækkað um 1,75%, en markaðurinn er enn opinn.
  • S&P&/ASX 200 vísitalan í Ástralíu stóð nánast í stað, með einungis 0,12 punkta hækkun.
  • Dow Jones New Zealand vísitalan lækkaði um 0,42%