Töluverð lækkun varð á mörkuðum í Bandaríkjunum í dag, fyrsta viðskiptadag ársins. Nasdaq lækkaði um 1,61% og stendur vísitalan nú í 2609,63 stigum. Dow Jones lækkaði um 1,67% og Standard & Poor's um 1,44%. Sá hluti sem snýr að iðnaði í Dow Jones vísitölunni hefur ekki byrjað jafn illa frá árinu 1983 að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Það voru fyrst og fremst bankar og tölvufyrirtæki sem lækkuðu í dag. Orðrómur fór af stað í dag um að Merrill Lynch myndi byrja að segja upp fólki í þessari viku og þyrfti að öllum líkindum að afskrifa 10 milljarða dala til viðbótar því sem þegar hefur verið afskrifað.

Intel tölvuframleiðandinn lækkaði um 4,9% í dag eftir að Bank of America mælti með sölu á hlutabréfum í fyrirtækinu. Intel hækkaði um 32% á síðasta ári en hefur ekki fallið jafn mikið á einum degi í 12 mánuði. Hewlett Packard féll um 1,6% í dag. Bank of America sagði í skýrslu í dag að eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins myndi minnka næstu misseri.

Hins vegar hækkðu bréf í Amazon um 2,42% eftir að Citigroup mælti með kaupum á bréfum í fyrirtækinu.

Eins og vb.is greindi frá fyrr í kvöld fór verð á hráolíu upp í 100 bandaríkjadali á hádegi í dag. Í lok dags var kostaði tunnan af oliu 99,62 bandaríkjadali.