Vikan endaði á því að hlutabréf lækkuðu í Bandaríkjunum í dag. Nasdaq lækkaði um 1,95%, Dow Jones lækkaði um 1,92% og Standard & Poor's 500 lækkaði um 1,36%. Nasdaq sýndi rauðar tölur frá opnun í dag.

Fjármálafyrirtæki lækkuðu almennt. American Express tilkynnti einnig um versnandi afkomu þar sem kreditkortanotkun hefur farið minnkandi síðustu vikur. Capital One bankinn gaf einnig út afkomuviðvörun en innheimta bankans á lánum hefur gengið erfiðlega undanfarið.

Eins og greint var frá í gær er Bank of America langt kominn með yfirtökuferli í fasteignalánafyrirtækinu Countrywide. Í dag var greint frá því að Bank of America mun greiða um 4 milljarða fyrir lánafyrirtækið.

WSJ greindi frá því að Citigroup væri enn að leita eftir auknu fjármagni og er talið að bankinn muni reyna að endurfjármagna sig með sölu á hlutabréfum fyrir 15 milljarða bandaríkjadala. Citigroup var eitt af fáum fjármálafyrirækjum sem hækkaði í dag.

Og enn bárust fréttir af fjármálafyrirtækjum. New York Times greindi frá því að Merrill Lynch bankinn muni afskrifa á næstunni afskrifa um 15 milljarða bandaríkjadala sem er helmingi meira en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Í næstu viku munu mörg fjármálafyrirtæki tilkynna um afkomu sína og verður því athyglisvert að fylgjast með því.