Hlutabréf hafa lækkað töluvert í Evrópu í morgun en lækkunin er þó ekki jafn hröð og hún var í byrjun dags á föstudag.

Lækkun markaða í Evrópu má rekja til mikillar lækkana í Asíu auk þess sem talin er hætta á að fleiri ríki þurfi á næstu vikum og mánuðum að leita sér aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins líkt og Ísland hefur gert.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur þar sem af er degi lækkað um 5,1%.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan lækkað um 4,7%, í Amsterdam hefur AEX vísítalan lækkað um 5,1% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 4,4%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 5,9% og í Sviss hefur SMI vísitalan lækkað um 4,6%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 4,1%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 4,9% og í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 5,5%.