Hlutabréf lækkuðu í Evrópu og Bandaríkjunum í dag. Lækkun helstu vísitalna í Evrópu var á bilinu 0,1% til 0,8%, mest í Bretlandi. Í Bandaríkjunum lækkaði Dow Jones vísitalan um 0,2% og S&P 500 um 0,3%. Nasdaq vísitalan hækkaði hins vegar um 0,3%.

Tæknifyrirtækið Google hækkaði um 2,6% í viðskiptum dagsins og lokaði í fyrsta sinn í yfir 600 dölum á hlut. Viðskipti voru almennt lítil vegna frídags, Kólumbusardagsins, og skuldabréfamarkaðir voru lokaðir.

Á morgun er gert ráð fyrir meira fjöri á mörkuðum en þá hefst uppgjörshrinan með birtingu uppgjörs Alcoa.