Hlutabréf hafa lækkað í Evrópu það sem af er degi og hefur FTSEurofirst 300 vísitalan lækkað um 0,5%.

Í Lundúnum hefur FTSE lækkað um 0,5% á meðan AEX vísitalan í Amsterdam og DAX vísitalan í Frankfurt hafa lækkað um 1,1%. Þá hefur CAC 40 vísitalan í París lækkað um 1,2%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 1,1% en í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 0,3%.

Bankar hafa lækkað nokkuð í dag. Þannig hefur til að mynda Credit Suisse lækkað um 2,3%, Royal Bank of Scotland um 1,5% og ING Group um 1,6%.

Bæði Seðlabanki Evrópu sem og Englandsbanki munu í dag tilkynna um stýrivaxtaákvörðun sína. Könnun Bloomberg gerir ráð fyrir að stýrivextir fari úr 5,25% niður í 5% hjá Englandsbanka en að Seðlabanki Evrópu haldi stýrivöxtum óbreyttum í 4%.