Hlutabréf féllu í verði vestanhafs á mánudaginn eftir að Maria Bartiromo, fréttamaður á CNBC fjármálastöðinni, sagði í beinni útsendingu að Ben Bernanke seðlabankastjóri hefði sagt að orð hans í síðustu viku hefðu verið "misskilin".

Bartiromo sagði að Bernanke hefði sagt, í kvöldverðarboði Hvíta hússins á laugardaginn, að hann hefði ekki ætlast til þess að markaðurinn skildi orð hann þannig að bandaríski seðlabankinn væri nærri því búinn að hækka stýrivexti í bili.

"Ég spurði hann hvort markaðurinn hefði túlkað vitnisburð hans fyrir þingnefndinni rétt og hann sagði hreint út: nei," sagði Bartiromo í útsendingunni, sem var bein af gólfinu á Vörumarkaðinum í Chicago. Í kjölfarið myndaðist svo mikill hávaði í kringum hana að varla heyrðist það sem hún sagði í kjölfarið. Hún bætti við: "Hann sagði að hann og félagar hans í Markaðsnefnd alríkisins [e. Federal Open Market Committee] hefðu verið að reyna að mynda sveigjanleika fyrir seðlabankann, með því að segja að bankinn gæti hugsanlega tekið sér hlé [frá vaxtahækkunum] en að tölulegar upplýsingar myndu ráða því hvort frekari hækkanir myndu eiga sér stað."

S&P 500 vísitalan lækkaði um 0,7% og Nasdaq vísitalan um nærri 0,9%. Hlutabréf höfðu hækkað í verði eftir vitnisburð Bernankes í síðustu viku, en hann þótti benda til að líklegt væri að seðlabankinn hægði á vaxtahækkunum á næstunni.