Hlutabréfamarkaðir í Evrópu lækkuðu flestir í dag eftir mikla rússíbanaferð. Flestir markaðir hækkuðu í morgun þegar tilkynnt var að seðlabankar víðs vegar um heiminn ætluðu að auka verulega fjármagn í umferð en seinni part dags fóru markaðir að lækkað aftur.

Að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja lækkanir dagsins til lítillar tiltrúar fjárfesta á auknu fjármagni í umferð þar sem mikill óvissa ríki bæði um að fleiri fjármálastofnanir verði gjaldþrota auk þess sem mögulegar sameiningar banka og fjármálafyrirtækja séu enn óljósar.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 0,6% en hafði um tíma í dag hækkað um 1,2%. Vísitalan hefur nú lækkað alla daga vikunnar um það sem nemur 9% og er þetta versta vikan frá 11. september 2001.

Bankar og fjármálafyrirtæki rokkuðu nokkuð í dag. Þannig lækkaði Barclays til að mynda um 5,3%, Royal Bank of Scotland um 4,5% og Credit Agricole um 4,4% á meðan BNP Paribas hækkaði um 3% og Credit Suisse um 2,8%.

Í gærkvöldi var tilkynnt um yfirtöku Lloyds á HBOS og fóru bankarnir alveg í sitthvora áttina í dag. Hlutabréf í HBOS hækkuðu um 26% á meðan bréf í Lloyds lækkuðu um 18%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,7%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 1,5% en í Frankfurt stóð DAX vísitalan í stað við lok markaða.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 1,1% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,5%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,5% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 2,9%. Í Stokkhólmi hins vegar lækkaði OMXS vísitalan um 0,4%.