Hlutabréf lækkuðu seinni part dags í Evrópu eftir að hafa hækkað örlítið í morgun en það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki ásamt tæknifyrirtækjum sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSEurorfirst 300 vísitalan lækkaði um 0,4% en hafði um tíma hækkað um 0,3% í dag.

HBOS bankinn lækkaði um 7% og leiddi lækkanir banka og fjármálafyrirtækja en orðrómur var um að bankinn þyrfti að afskrifa tæpa 2 milljarða Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi vegna undirmálslána á fasteignamarkaði. Talsmenn bankans vildu ekki tjá sig um málið í dag.

HBOS var þó ekki eini bankinn sem lækkaði þótt hann hafi lækkað mest en Alliance & Leicester lækkaði um 5,3% og UBS lækkaði um 3,7% í dag.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,8%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,9% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,1%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,6% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,3%.

Þá lækkaði OMXC vísitalan í Kaupmannahöfn um 0,3%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 0,2% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan  um 0,7%.