Hlutabréf lækkuðu nokkuð í Evrópu í dag eftir að hafa hækkað mikið síðustu tvo daga. Að sögn Reuters má rekja lækkanir dagsins til vantrúar fjárfesta á björgunaraðgerðir vestrænna ríkisstjórna sem þeir (fjárfestarnir) telja að muni aðeins hafa takmörkuðu áhrif á fjármálamarkaði.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 6,7% í dag eftir að hafa hækkað um 3,1% í gær og 10% á mánudag.

Námufyrirtæki lækkuðu nokkuð í dag og segir viðmælandi Reuters að fjárfestar hafi losað sig í stórum stíl við slík en hrávöruverð hefur lækkað lítillega síðustu daga sem rýrir verðgildi námufyrirtækja.

Þannig lækkaði Rio Tinto um 17% og Anglo American um 21% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 7,2%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 7,6% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 6,5%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 6,8% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 5,6%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 5,3%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 5,6% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 9,4%.

Lækkun vestanhafs

Það sem af er degi hafa hlutabréf einnig lækkaði í Bandaríkjunum. Nú hafa markaðir á Wall Street verið opnir í rúmar þrjár klukkustundir.

Síðan þá hefur Nasdaq vísitalan lækkað um 3,5%, Dow Jones um 3,4% og S&P 500 um 4,3%.