Gengi hlutabréfa Marel hækkaði um 2,01% í rúmlega 230 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Þetta var mesta hækkun dagsins og næstmestu viðskiptin með hlutabréf á markaðnum. Á sama tíma hækkaði gengi hlutabréfa Icelandair Group um 1,5%. Velta með bréfin nam tæpum 257,2 milljónum króna og var það mesta hlutabréfaveltan.

Þá hækkaði gengi bréfa Össurar um 1,49%, fasteignafélagsins Regins um 1,06% og Vodafone um 0,46%.

Gengi bréfa Eimskips lækkaði hins vegar um 0,6%.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,24% og endaði hún í rúmum 1.150 stigum. Vísitalan hefur hækkað um 8,62% frá áramótum og hefur hún aldrei verið hærri í lok dags. Vísitalan tók gildi á nýársdags árið 2009 og var upphafsgildi hennar 1.000 stig.