Gengi hlutabréfa Marel lækkaði um 1,4% í 116 milljóna króna veltu með þau í Kauphöllinni í dag. Það stendur nú í 98,6 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan rétt fyrir jólin árið 2010. Til samanburðar stóð gengi hlutabréfa Marel í 137,5 krónum á hlut í byrjun árs. Miðað við gengisþróunina í dag hefur það fallið um 24,8% á rétt rúmum níu mánuðum.

Gengislækkun bréfa Marel hefur komið illa við Eyri Invest , sem á tæpan 30% hlut í Marel. Félagið tapaði jafnvirði tæpra 6,6 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Tekið var fram í uppgjörstilkynningu Eyris að tapið skýrðist að langstærstu leyti af gengislækkun hlutabréfa Marel á árinu.