Hlutabréf í japanska tölvuleikjafyrirtækinu Nintendo hafa hækkað um nálega fjórðung í dag.

Vinsælasti leikurinn

Kemur hækkunin í kjölfarið á því að snjallsímaleikur fyrirtækisins, Pokemon Go, er orðinn vinsælasti leikurinn í Bandaríkjunum. Leikurinn sem kom út á miðvikudag snýst um að finna og grípa Pókemon karaktera sem staðsettir eru hér og þar í landslaginu og sjást á skjánum.

Nam hækkunin 24,52% á mörkuðum í nótt en stefnt er að því að leikurinn komi á markað í Japan fljótlega.

Pokestop í Nexus

Í leiknum eru jafnframt svokölluð pokestops sem staðsett eru oft á sögulegum stöðum, við minnismerki og jafnvel spila- og teiknimyndabúðir líkt og Nexus í Reykjavík. Á þessum stöðum geta spilarar gripið alls kyns hjálpartæki sem gagnast við frekari spilun.

Þetta hefur þó leitt til ákveðinna vandamála, en til að mynda í Wyoming rakst unglingur á lík í á eftir að hafa fylgt leiðbeiningum leiksins. Jafnframt hafa pokestop verið fundin í kirkjugörðum sem ekki allir hafa verið sáttir við.

Notendur rændir

Í Missouri sátu svo vopnaðir ræningjar svo fyrir spilurum á afviknum stað sem leikurinn hafði útnefnt sem pokestop, og tókst þeim að ræna átta spilendur.

Leikurinn virðist þó leiða til skemmtilegra atvika, einn notanda tísti að hann hefði aldrei áður á þeim 20 árum sem hann hefði búið í New York átt orðastað við ókunnugan í neðanjarðarlestum borgarinnar, en leikurinn opnaði samskipti við fólk.

Hér er hægt að sjá auglýsingarmyndband um leikinn.