Í nótt lækkuðu hlutabréf í japanska tölvuleikjafyrirtækinu Nintendo um 7,1% sem færir heildargengislækkun hlutabréfa fyrirtækisins niður um 11% frá því að nýr tölvuleikur þess var gefinn út á fimmtudag.

Leikurinn byggir á einni þekktustu söguhetju tölvuleikjaheims Nintendo, og ber nafnið Super Mario Run og hans hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu.

Efstur á sölulista App Store

Við fyrstu sýn virðist leiknum hafa verið vel tekið, og náði hann efst á sölulista hjá iOS App Store yfir helgina. Náði hann því að vera sá leikur sem mestu hefur skilað í 11 mismunandi löndum í kjölfar þess að notendur greiddu hver 9,99 Bandaríkjadali fyrir hann.

Margir notendur voru þó ekki ánægðir með hann og voru um helmingur þeirra 50 þúsund umsagna um leikinn sem komnar voru á mánudag ekkert sérstaklega ánægðir eða jafnvel neikvæðar. Er leikurinn því einungis með tvær og hálfa stjörnu af fimm mögulegum.

Viðskiptamódel veldur áhyggjum

Eitt af því sem valdið hefur áhyggjum er viðskiptamódelið á bak við leikinn, en ákvörðunin um að láta notendur greiða einu sinni háa upphæð fyrir leikinn í stað margra smárra greiðslna hefur valdið áhyggjum yfir að leikurinn muni ekki halda áfram að skila veglegum tekjum.

Einnig hefur gengi bréfa DeNa sem hjálpaði til við að þróa leikinn lækkað um 14% síðan leikurinn kom út. Fyrir fram voru ýmsir með áhyggjur af leiknum, þar á meðal þeirri ákvörðun að gefa hann einungis út fyrir iPhone síma og iPad spjaldtölvur frá Apple.