Hlutabréfaverð í danska skartgripaframleiðandanum Pandoru hefur lækkað mikið að undanförnu í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Lækkunin í dag nam 2,7% og hefur félagið lækkað í verði síðustu sjö af átta viðskiptadögum. Endurheimtur Seðlabanka Íslands af láni sem bankinn veitti Kaupþingi eru að miklu leyti bundnar virði FIH bankans og gengi bréfa í Pandoru. Fjárfestingasjóður í eigu FIH á um 58% hlut í Pandoru.

FIH lá sem veð fyrir 500 milljóna evra láni Seðlabanka Íslands til Kaupþings, sem Seðlabankinn veitti Kaupþingi tveimur dögum áður en hann féll í október 2008. Tilkynnt var um sölu FIH í september í fyrra. Söluvirði var um 5 milljarðar danskra króna og kaupendur, sem eru meðal annars danskir lífeyrissjóðir, staðgreiddu um 41,2 milljarða króna. Sú upphæð er um helmingur þess sem Kaupþing fékk lánað frá Seðlabankanum.

Til viðbótar staðgreiðslunni veitti Seðlabanki Íslands kaupendahópnum seljendalán upp á 67,3 milljarða króna. Það lán er með gjalddaga 31. desember 2014. Höfuðstóll lánsins er bundinn við danska neysluvísitölu og það ber ekki vexti. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að höfuðstóll lánsins muni því lækka sem nemur raunverulegu tapi FIH fram að gjalddaga lánsins. Dæmi um hluti sem gætu valdið slíku er endanleg afskrift lána.

Á móti var gert samkomulag um að höfuðstóll lánsins myndi hækka í takti við sölu eigna sem eru í fjárfestingarsjóðnum Axcel III, sem er í eigu FIH. Sjóðurinn á hluti í nokkrum mismunandi fyrirtækjum en þar munar langmest um 57,4% eignarhlut í Pandoru.

Gengi Pandoru hríðfallið

Eins og áður segir hefur hlutabréfaverð í Pandoru hríðlækkað að undanförnu og lækkuðu bréf félagsins mest í kauphöllinni í Kaupmannahöfn í dag. Í frétt Börsen í dag segir að lækkunina megi rekja til hækkandi verðs á gulli og silfri. Lokagengi bréfanna var 225,8 danskar krónur.

Pandora var skráð í kauphöll 5. október í fyrra. Skráningargengið var 210 danskar krónur og í lok fyrsta viðskiptadags stóð gengi þeirra í 263 dönskum krónum. Hæst varð virði þeirra 367,5 danskar krónur á hlut þann 13. janúar sl.

Axcel III sjóðurinn má ekki selja neitt af bréfum sínum fyrr en í október 2011. Ef áframhaldandi fall á virði bréfanna heldur áfram er nokkuð ljóst að það mun hafa töluverð áhrif á mögulegar endurheimtur Seðlabankans.