Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors tilkynnti í dag að félagið myndi selja  allan hlut sinn í franska PSA Peugeot Citroën. Wall Street Journal greinir frá.

GM keypti 7% hlut í franska bílaframleiðandanum í febrúar í fyrra, á sama tíma og fyrirtækin tilkynntu um samstarf sem felst aðallega í tækniþróun. Samstarfið mun halda áfram þrátt fyrir söluna.

GM greiddi 404 milljónir Bandaríkjadala fyrir hlutinn. Fimm mánuðum eftir kaupin hafði GM tapað 160 milljónum dala á kaupunum. Hlutbréfin hafa rétt talsvert úr kútnum að undanförnu og má ætla að tap GM sé um 30% af upphaflegu kaupverði.

Hlutabréfamarkaðurinn tók tíðindunum illa í dag og lækkuðu bréf félagsins um 7,6% við tilkynninguna.