Hlutabréf Icelandair og Play hafa lækkað talsvert í fyrstu viðskiptum í dag en flugfélögin birtu bæði uppfjör fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í gær.

Gengi hlutabréfa Icelandair hefur lækkað um 4,4% í meira en hundrað milljóna króna veltu og stendur í 1,97 krónum þegar fréttin er skrifuð. Icelandair tapaði rúmum 7 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. Tekjur félagsins námu um 33 milljörðum á fjórðungnum sem er 47% aukning á milli ára.

Hlutabréfaverð Play hefur fallið um 6,7% í 50 milljóna viðskiptum og stendur nú í 12,5 krónum á hlut. Play var rekið með um 2,3 milljarða króna tapi á fyrsta fjórðungi. Tekjur á fyrsta ársfjórðungi námu um 4,4 milljörðum króna á tímabilinu sem er meira en þreföldun frá sama tímabili í fyrra.

Alvotech hækkað um 24% í vikunni

Hlutabréf Alvotech hafa hækkað um meira en 5% í fyrstu viðskiptum í dag en bréfin hækkuðu einnig um 10,5% í gær.

Hlutabréfaverð stendur nú í 1.490 krónum á hlut og er um 24% hærra en við lokun Kauphallarinnar á mánudaginn þegar það náði sínu lægsta gengi í ár í 1.200 krónum.