Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins Regins hækkaði um 1,69% í Kauphöllinni í dag og náði gengi þeirra enn á ný hæstu hæðum. Það hefur nú hækkað um 2 krónur eða rétt rúm 24% síðan þau voru skráð á markað í byrjun júlí.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Haga-samstæðunnar um 0,52% og stoðtækjafyrirtækisins Össurar um 0,26%.

Engin lækkun var á hlutabréfamarkaði í dag.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,16% og endaði vísitalan í 993,48 stigum. Talsverð velta var á hlutabréfamarkaði eða 215,8 milljónir króna.