Gengi hlutabréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar lækkaði um 1,52% í rúmlega 21 milljóna króna veltu í Kauphöllinni. Gengið stendur nú í 194,5 krónum á hlut og hefur það ekki verið jafn lágt og í mars.

Á sama tíma lækkaði gengi hlutabréfa Icelandair Group um 0,42%.

Á hinn bóginn hækkaði gengi bréfa fasteignafélagsins Regins um 0,6% og fór það í fyrsta sinn yfir 10 krónur á hlut. Gengishækkun hlutabréfa Regins nemur nú 21% síðan bréf félagsins voru skráð á markað í sumar.

Af öðrum félögum hækkaði gengi bréfa Hagasamstæðunnar um 0,52% í óvenju miklum viðskiptum eða upp á rúmar 300 milljónir króna. Gengi hlutabréfa Marel hækkaði á sama tíma um 0,37%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,26% í veltu upp á tæpar 630 milljónir króna og endaði vísitalan í 994,05 stigum.