Gengi hlutabréfa Icelandair Group lækkaði um 1,11% í tiltölulega litlum viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Velta með hlutabréf félagsins nam aðeins rúmum 110 þúsund krónum. Á sama tíma lækkaði gengi bréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar um 1% og Marel um 0,37%.

Öðru máli gegndi hins vegar um gengi bréfa fasteignafélagsins Regins sem hækkaði um 2,09% og fór það upp í 9,77 krónur á hlut. Gengi bréfa félagsins hefur aldrei verið hærra. Til samanburðar var það 8,25 krónur á hlut þegar hlutabréfin voru skráð á markað í sumar. Fasteignafélagið tilkynnti um endurfjármögnun Egilshallar í gær og hagstæðari lánakjör.

Lækkun á hlutabréfum dró Úrvalsvísitöluna niður um 0,44% og endaði hún í 997,37 stigum. Heildarvelta með hlutabréf í Kauphöllinni nam 309 milljónum króna.