Hlutabréfaverð Kauphallarfélaga hafa hækkað verulega í fyrstu viðskiptum dagsins. Fjárfestar virðast því taka vel í niðurstöður Alþingiskosninganna um helgina en allt stefnir í óbreytta ríkisstjórn.

Úrvalsvísitalan hækkaði um ríflega þrjú prósent við opnun Kauphallarinnar. Mesti hástökkvarinn er útgerðarfélagið Brim sem hefur hækkað um 7% í morgun. Margir stjórnarandstöðuflokkar höfðu boðað ýmsar aðgerðir í sjávarútveginum, á borð við hærra veiðigjald og markaðsleið kvóta.

Bankarnir þrír, Íslandsbanki, Arion og Kvika, hafa allir hækkað um tæplega 5% í fyrstu viðskiptum dagsins. Smásölufyrirtækin Hagar og Festi hækka sömuleiðis um 4-5% í morgunsárið.

Markaðurinn hafði sveiflast nokkuð niður á við undanfarnar þrjár vikur, sem ýmsir greiningaraðilar höfðu lýst sem viðbrögðum við auknum líkum á að vinstri stjórn tæki myndi leiða næstu ríkisstjórn.