Hlutabréf hækkuðu strax við opnun markaða í Evrópu í dag og í lok dags hafði FTSEurofirst vísitalan hækkað um 1,7%.

Bankar og fjármálafyrirtæki hækkuðu í dag. Þannig hækkaði Royal Bank of Scotland nokkuð eða um 7,6% og Barclays um 6,7% eftir að orðrómur myndaðist þess efnis að bresk yfirvöld myndu fljótlega grípa inn í til að binda endi á lausafjárkrísu. Eins og fyrr hefur verið greint frá átti Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands fund með bankastjórum þarlendis í gær.

Þá hækkaði Credit Suisse bankinn um 2,1%, Deutsche Bank um 3% og UBS um 1%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,4%. Þá hækkaði AEX vísitalan í Amsterdam um 2,2%, DAX vísitalan í Frankfurt um 1,8% og CAC 40 vísitalan í París um 1,6%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 1,25% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 1,4%.