Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar (SVN) hefur hækkað um 6,9% í fyrstu viðskiptum dagsins og stendur nú í 103 krónum á hlut. Síldarvinnslan, sem er með höfuðstöðvar í Neskaupstað, tilkynnti í gærkvöldi um kaup á út útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík á 31 milljarð króna.

Fram kom að 70% kaupverðsins greiðist með útgáfu hlutabréfa í SVN og 30% með reiðufé. Síldarvinnslan sagði að með viðskiptunum verði fjölskyldan á bak við Vísi meðal kjölfestufjárfesta í félaginu.

Sjá einnig: Síldarvinnslan kaupir Vísi á 31 milljarð

Þá hefur gengi Eimskips, Símans, Brims og Kviku hækkað um meira en 1% frá opnun Kauphallarinnar í morgun og hlutabréf Icelandair fallið um 2,4%. Lítil velta hefur verið með hlutabréf annarra félaga en Síldarvinnslunnar það sem af er degi.