Það sem af er degi hefur S&P 500 vísitalan hækkað um 2,5% og Nasdaq vísitalan um fjögur prósent. Hlutabréf tæknirisanna hafa hækkað verulega. Til að mynda hafa hlutabréf Facebook hækkað um rúmlega sjö prósent þegar þetta er skrifað. Bréf Google um 6,5%, bréf Amazon um tæplega sex prósent og bréf Unity Software, félag Davíðs Helgasonar, um rúmlega átta prósent.

Ásamt hækkunum á hlutabréfum tæknifyrirtækja hafa fjárfestar flykkst í bandarísk ríkisskuldabréf. Ástæðuna má rekja til þess að ólíklegra er nú en áður að Joe Biden vinni forsetakosningarnar vestanhafs og að Demókrataflokkurinn vinni bæði fulltrúadeildina og öldungadeildina, frá þessu er greint í frétt Financial Times . Skyldi Donald Trump ná endurkjöri eru lægri líkur en ella á frekari fjárhagsaðstoð sökum veirufaraldursins.

Ávöxtunarkrafa tíu ára ríkisskuldabréfa í Bandaríkjunum hefur lækkað í dag um 13 punkta, sem er mesta lækkun síðan í mars á þessu ári. Ávöxtunarkrafan er nú um 0,76%.

Bréf Unity í hæstu hæðum

Hlutabréf Unity Software, félags Davíðs Helgasonar, standa í 106 Bandaríkjadölum eftir að hafa hækkað um rúmlega átta prósent í dag. Félagið var skráð í kauphöll New York í september síðastliðnum og var útboðsgengið 52 Bandaríkjadalir, bréf félagsins hafa því ríflega tvöfaldast síðan þá.

Markaðsvirði félagsins er nú um 28 milljarðar Bandaríkjadalir, andvirði um 3.886 milljarða króna. Marel er verðmætasta fyrirtækið innan íslensku kauphallarinnar og er það metið á um 544 milljarða króna.