Gengi Dow Jones vísitölunnar hefur ekki lækkað meira á einni viku frá því í mars. Lækkunin í októbermánuði er einnig sú mesta frá því í mars að því er WSJ greinir frá.

Nasdaq, S&P 500 og Dow Jones hlutabréfavísitölurnar lækkuðu allar um meira en 2% í október, en þetta er annar mánuðinn í röð sem vísitölurnar lækka.

Fjárfestar óttast að útbreiðsla nýrrar bylgju kórónuveirunnar muni hafa í för með sér frekari neikvæðar efnahagsafleiðingar.  Þá hafa fjárfestar tekið að óttast að aðgerðir hins opinbera til að milda höggið af efnahagsáfallinu muni skila sér í aukinni verðbólgu á næsta ári. Neysla bandarískra heimila jókst í september en áhyggjur eru uppi af stöðu þeirra sem verst fara út úr faraldrinum. „Það kæmi ekki á óvart neysluvöxturinn skili sér í meira mæli til tekjuhærri heimila,“ segir Beth Ann Bovino, yfirhagfræðingi S&P Global í Bandaríkjunum.

Bréf tæknirisanna féllu

Hlutabréf tæknirisarnir lækkuðu mest í gær. Í umfjöllun WSJ segir að hlutabréfaverð stóru tæknifyrirtækjanna hafi miðað við að allt myndi ganga upp. Viðbúið var að afkoma undir væntingum myndi hafa í för með sér að bréf þeirra myndu lækka.

Stærstu dýfuna í gær tók hlutabréfaverð í Twitter og féll um 21%. Þá féll hlutabréfaverð Facebook, Apple, Amazon og Netflix í kringum um 5%. Þó er almennt talið að uppgjör tæknirisanna fyrir síðasta ársfjórðung hafi verið með ágætum. Eina undantekningin var Alphabet, móðurfélag Google, sem hækkaði um 3,8% en afkoma félagsins var umfram væntinga greiningaraðila.