Hlutabréf bandarísku verslunarkeðjunnar Target hafa lækkað um fjórðung eftir birtingu uppgjörs í gær. Félagið greindi frá því að rekstrarniðurstöður á síðasta ársfjórðungi hefðu verið undir afkomuspá. Target segist ætla að taka á sig kostnaðarhækkanir að hluta fremur en að hækka verð. WSJgreinir frá.

Með því að sporna við að velta hærri kostnaði út í verðlagið vonast Target til að auka markaðshlutdeild sína og fórna í stað skammtímahagnaði.

Tekjur Target á fjórðungnum, sem lauk 30. apríl, jukust um 4% á milli ára og námu 25,2 milljörðum dala. Rekstrarhagnaður félagsins dróst hins vegar saman um 43% á milli ára. Hagnaður Target eftir skatta lækkaði úr tveimur milljörðum dala í einn milljarð á milli ára.

Fram kom að eldsneytis- og fraktkostnaður félagsins hefði verið einum milljarði dala meiri en áætlað var.

Verslunarrisinn Walmart sendi einnig frá sér neikvæða afkomuviðvörun á mánudaginn og lækkaði afkomuspá sína fyrir árið. Hlutabréf Walmart lækkuðu í kjölfarið um 11%.