Hlutabréfum Tesla verður skipt í fimm hluta hvert eftir lokun markaða í dag með útgáfu svokallaðra jöfnunarhlutabréfa (e. stock split). Fyrir hvert bréf sem hluthafi á í dagslok fær hann fjögur til viðbótar, en þar sem útistandandi fjöldi fimmfaldast verður eignarhlutdeildin óbreytt. Því má búast við að hlutabréfaverð rafbílaframleiðandans falli um 80% við opnun markaða á mánudag.

Hlutabréfin munu þó hafa fimmfaldast á fleiri vegu en einn, því frá áramótum hefur gangvirði bréfanna hækkað um 420%, eða rúmlega fimmfaldast. Hvert bréf kostaði við lokun markaða í gær 2.239 dali – eða um 310 þúsund krónur. Síðastliðna 12 mánuði hafa bréfin rúmlega tífaldast í verði. Heildarmarkaðsvirði félagsins nemur nú 417 milljörðum dala, um 58 þúsund milljörðum króna, en það er rétt tæplega tvöfalt markaðsvirði næststærsta bílaframleiðandans, Toyota.

Þrátt fyrir að útgáfa jöfnunarhlutabréfa hafi engin efnisleg áhrif á undirliggjandi rekstur eða eignarhlut hluthafa, hafa bréfin hækkað um 63% eða 864 dali frá því tilkynnt var um skiptinguna fyrir tveimur og hálfri viku síðan.

Auðveldar viðskipti og merki um bjartsýni
Þótt skiptingin ætti fræðilega séð ekki að hafa nein áhrif – eignarhlutur hvers eiganda er óbreyttur – getur hún haft nokkur óbein áhrif, og þess eru fleiri dæmi að útgáfa jöfnunarhlutabréfa hækki verð. Tæknirisinn Apple tilkynnti í lok júlí um að bréf um sínum yrði skipt í fernt. Bréfin hækkuðu um rúm 10% daginn eftir, og þegar útgáfan gekk í gegn nú á mánudag höfðu þau hækkað um rúm 30% , þótt vafalítið megi telja sitthvað fleira til sem þar getur hafa haft áhrif.

Megináhrif og tilgangur skiptanna er að lækka verð á hvern hlut, til að auðvelda minni fjárfestum kaup á eignarhlut, þótt í dag séu til hlutabréfamiðlanir sem bjóða viðskipti með hlut úr bréfi. Sömu áhrifa gætir á viðskipti með valrétti, en hver valréttarsamningur telur 100 bréf, og verðið getur því hæglega hlaupið á milljónum.

Þess fyrir utan eru ýmis óáþreifanlegri en ekki síður mikilvæg sálræn áhrif. Félagi, hvers bréf eru orðin svo dýr að það er orðið vandamál, hefur alla jafna gengið mjög vel undanfarið, og sé ráðist í útgáfu jöfnunarbréfa kann það að senda þau skilaboð að yfirstjórn félagsins búist við áframhaldandi hækkunum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .