Rafbílaframleiðandinn Tesla skilaði 104 milljóna dollara hagnaði á öðrum fjórðungi ársins, samanborið við 408 milljóna dollara tap á sama tímabili í fyrra. Hlutabréf fyrirtækisins hækkuðu um meira en 4% í viðskiptum eftir lokun markaða í gær.

Markaðsvirði Tesla er nú um 295 milljarðar dollarar og því rúmlega 90 milljörðum dollara verðmætara en Toyota. Heildartekjur fyrirtækisins námu rúmlega sex milljörðum dollara, um einum milljarði umfram spár fjárfesta og einungis 5% lægra en á sama tíma í fyrra þrátt fyrir tímabundnar lokanir verksmiðja.

Um 428 milljónir dollara, eða um 58,5 milljarðar íslenskra króna, af tekjum Tesla komu frá kolefnisheimildum (e. regulatory credits), sem fyrirtækið selur til annarra bílaframleiðenda. Sala á heimildunum var því um 7% af heildartekjum Tesla á ársfjórðungnum.

Þetta er fjórði ársfjórðunginn í röð sem rafbílaframleiðandinn skilar hagnaði. Fyrir vikið getur Tesla fengið inngöngu í S&P 500 vísitöluna, en sá möguleiki var talinn ein af ástæðunum fyrir hækkun hlutabréfagengis félagsins á síðustu mánuðum. Innganga í vísitöluna myndi líklega leiða til að vísitölusjóðir myndu kaupa hlutabréf Tesla.

Tilkynntu nýja verksmiðju í Texas

Tesla tilkynnti einnig um áætlanir um að byggja verksmiðju í Austin, höfuðborg Texas fylkis. Framleiðsla á CyberTruck bílunum og Semi vörubílunum mun fara fram í verksmiðjunni.

Fyrirtækið starfrækir fyrir einungis þrjár verksmiðjur í heiminum og þar af aðeins eina í Bandaríkjunum. Elon Musk, stofnandi Tesla, sagði að verksmiðjan muni vera „vistvæn paradís“ við Colorado-fljótið, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Greg Abbott, fylkisstjóri Texas, sagði í fréttatilkynningu að verksmiðjan, sem mun kosta um einn milljarð dollara, muni búa til að minnsta kosti fimm þúsund ný störf.