*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Erlent 24. október 2019 12:30

Hlutabréf Tesla hækka um 18%

Uppgjör Tesla fyrir þriðja ársfjórðung var langt fram úr væntingum greiningaraðila.

Ritstjórn
Elon Musk, stofnandi og framkvæmdastjóri Tesla.
epa

Hlutabréf rafbílaframleiðandans Tesla hafa hækkað um rúm 18% á eftirmarkaði eftir að félagið birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í gær. Niðurstöðurnar komu flestum á óvart en hagnaðurinn nam 143 milljónir Bandaríkjadala samanborið við 1,1 milljarða dollara tap á fyrri hluta ársins. Financial Times greinir frá.

Leiðréttur hagnaður á hvern hlut (e. adjusted earnings per share) er því núna 1,86 dollarar en tekið er fram að spár flestra hafi verið á bilinu 1,25 dollarar í tapi til 0,34 dollara hagnað.

Það helsta sem skýrir þessa miklu breytingu hjá afkomu félagsins er lækkun á kostnaði en tekjur fyrir þriðja ársfjórðung voru ofmetnar í helstu spám en þær voru 6,3 milljarðar dollara samanborið við 6,5 milljarða eins og spáð var fyrir.

Tesla er hvergi hætt að vaxa en fyrirtækið hefur gefið það út að nýja verksmiðjan í Shanghai fyrir Model 3 bílinn er full kláruð. Enn fremur kemur fram að kostnaðurinn við að byggja þá verksmiðju hafi verið 65% lægri samanborið við framleiðslukerfið fyrir bílinn í Bandaríkjunum.

Stikkorð: afkoma Tesla Elon Musk