Hlutabréf i Tesla Motors lækkuðu mikið í dag eftir að tímaritið Consumer Reports tók Model S af lista yfir bíla sem mælt er með og gaf rafbílnum einkunn undir meðallagi fyrir áreiðanleika.

Lækkunin hefur aðeins gengið til baka þegar liðið hefur á kvöldið og nemur nú 7% , en varð mest tæp 9%. Hlutabréfin standa í 212.

Um 1400 eigendur Tesla Model S bíla tóku þátt í könnuninni. Vandamálin sem þeir kvarta yfir eru m.a. bilun i drifbúnaði , hurðarhúnum, snertiskjám, hleðslubúnaði og algjör endurnýjunarþörf á rafmótorum.

Tímaritið hrósar hins vegar bílaframleiðandanum fyrir að bregðast hratt við þegar upp koma vandamál og mikið af þeim bilunum sem koma upp er innan ábyrgðar sem fylgir bílunum.

Þessar niðurstöður koma mikið á óvart, því aðeins eru liðnir tveir mánuðir síðan tímaritið gaf Model S 100 punkta af 100 mögulegum, sem gerði það að verkum að tímaritið þurfti að breyta einkunnarkerfi sínu.

Þrátt fyrir þetta eru eigendur Tesla mjög tryggir viðskiptavinir, 97% þeirra segjast ætla að kaupa Tesla aftur.

Tesla hefur ekki brugðist við áliti tímaritsins.