Tesla Motors birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun markaða á miðvikdag. Hlutabréf félagsins féllu um rúm 10% á fimmtudag og föstudag.

Tesla tapaði 47 milljónum dala á ársfjórðungnum, um 6 milljröðum, og svarar það til rúmlega 4.000 dala taps á hverjum seldum bíl, um hálfri milljón króna.

Stjórnendur Tesla áætla að selja 50-55 þúsund bíla í ár. Handbært fé lækkaði um 359 milljónir dala og stendur það í 1,15 milljarði dala.

Til samanburðar má nefna að General Motors selur um 9 milljónir bíla og er með 20 miilljarða dala í handbæru fé og aðra 8 milljarða í lausafjármunum. GM og Tesla munu berjast um hylli bílakaupenda árið 2017 þegar báðir framleiðendurnir munu koma með ódýra rafbíla á markaðinn. Sá bíll mun vafalaust skera úr um hvort viðskiptamódel Tesla gengur upp eða ekki.

Þrátt fyrir lækkunina í vikunni hafa bréf Tesla hækkað um 8% það sem af er ári og 70% á tveimur árum.