Gengi hlutabréfa Twitter Inc., hefur lækkað um 13% í dag - eftir að Bloomberg fjallaði um helgina að áhugasamir fjárfestar hafi ákveðið að bjóða ekki í fyrirtækið að svo stöddu.

Salesforce, Google og Walt Disney, höfðu sýnt því áhuga að fjárfesta í Twitter, en virðast samningaviðræðurnar hafa runnið í sandinn samkvæmt fréttum Bloomberg. Twitter hafði ákveðið að halda stjórnarfund fyrir helgi til að ræða söluna en hættu við hann á síðustu stundu.

Hlutabréf í Twitter eru metin á 17,21 dollara og hafa ekki verið lægri í tvo mánuði. Virði fyrirtækisins er því metið á um 12,18 milljarða dollara samanborið við 53 milljarða í lok árs 2013.

Twitter virðist því vera í slæmri stöðu þar sem að notendafjöldi þeirra hefur haldist í stað og fyrirtækið heldur áfram að tapa. Fjárfestar og sérfræðingar telja ólíklegt að stjórnendur Twitter séu með aðra lausn á bágri stöðu fyrirtækisins, en einfaldlega að selja það.