Victoria´s Secret býr við þann vanda að sala hefur minnkað í meginvörulínu þeirra, brjóstahöldurum en um 35% af sölu fyrirtækisins koma frá þeim. En áhuginn fyrir þeim virðist fara minnkandi og sækjast viðskiptavinir í auknum mæli eftir þægindum.

Tæplega þriðjungslækkun hlutabréfa

Minnkaði sala á hefðbundnum brjóstahöldurum um 10% sem er töluverður umsnúningur frá vextinum sem var á fyrri ársfjórðungum. Hlutabréf í móðurfyrirtækinu L Brands hafa hrunið um 29% það sem af er árinu.

Fjármálastjóri fyrirtækisins sagði að vöxturinn væri ekki sá sem þeir vildu sjá og hafa þeir brugðist við óskum um meiri þægindi með brjóstahöldurum án púða og víra.

Ný vörulína boðar frelsi

Á síðustu vikum hefur verið farið á fullt að markaðssetja nýju vörulínuna með auglýsingum sem nefna hve mikið frelsi fylgir því að hafa ekki púða og víra. Meginbreytingin er að eftirspurn viðskiptavina hefur breyst þannig að fólk vill borga minna og hafa meiri þægindi.

„Fólk sækist eftir náttúrulegra útliti, sem skaðar Victoria´s Secret,“ segir Randal Konik, greiningaraðili hjá Jefferies, því ef fólk kaupir ódýrari brjóstahaldara í auknum mæli, minnkar heildarsalan.