Á bilinu 50-60% hlutur í fjarskiptafyrirtækinu Vodafone verður boðinn til sölu eftir mánaðamótin og verður félagið skráð á markað eftir það. Um tvö hlutafjárútboð verður að ræða, lokað þar sem 40% hlutur verður í boði og almennur þar sem 10% hlutafjár verða í boði. Gengi hlutabréfa Vodafone verður 28,8 til 33,3 krónur á hlut í fyrra útboðinu og mun niðurstaðan í því ákvarða gengið í almenna útboðinu. Stjórn Vodafone hefur óskað eftir því að félagið verði skráð á markað 18. desember næstkomandi.

Fram kemur í auglýsingu frá Vodafone sem birt er í fjölmiðlum í dag að lokaða hlutafjárútboðið fari fram 3. desember en það almenna dagana 4. til 6. desember.

Fram kemur í auglýsingunni að verði eftirspurnin næg eftir hlutabréfum í almenna útboðinu þá verði 10% hlutabréfa í félaginu verða seld til viðbótar.