Úrvalsvísitalan hækkaði um 1% í dag og var lokagildi hennar 1.381,94 stig, hún hefur hækkað um 5,42% frá áramótum.

Heildarvelta á markaðnum nam 6,6 milljörðum í dag, þar af nam velta hlutabréfa 2,2 milljörðum. Icelandair, Marel, Vodafone og Össur birtu öll árshlutauppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun markaða í gær.

Nokkrar breytingar urðu á gengi uppgjörsfélaga í Kauphöllinni í dag. Hlutabréf Vodafone hækkuðu mest í dag, eða um 2,36%, Marel hækkaði um 2,34%, VÍS um 1,93%, Icelandair Group um 1,29%, HB Grandi um 0,69%, Sjóvá um 0,5% og N1 um 0,19%.

Hlutabréf Össurar lækkuðu mest eða um 3,66%, Reginn lækkaði um 1,04%, Reitir um 0,97%, Eik og Eimskip um 0,9%, Nýherji um 0,82%, Hagar um 0,36% og Tryggingamiðstöðin um 0,23%.