Tilboð upp á 9.969 milljónir króna bárust í 40% hlut Framtakssjóðsins lokuðu hlutafjárútboði í Fjarskiptum (Vodafone). Miðað við niðurstöðu útboðsins er verð hvers hluta í Vodafone 31,5 krónur á hlut, en verðbilið í útboðinu var 28,8 til 33,3 kr. á hlut. Útboðinu lauk klukkan 16 í dag. Stefnt er að skráningu Vodafone í Kauphöll 18. desember næstkomandi.

Almennt útboð með 10% hlut hefst í fyrramálið. Gengi bréfa Vodafone verður það sama og í dag. Almenna útboðinu lýkur á fimmtudag.

Fram kemur í tilkynningu frá Vodafone að seljanda er heimilt að bæta 10% útgefins hlutafjár við heildarfjárhæð útboðsins og ráðstafa þeim hvort heldur er í lokaða eða opna útboðinu samkvæmt útboðslýsingu.

Haft er eftir Ómari Svavarssyni, forstjóra Vodafone, það ánægjuefni hversu mikil eftirspurnin hafi verið í útboðinu í dag.

„Hún er viðurkenning á því góða starfi sem hér hefur verið unnið og er til marks um mikla trú fjárfesta á félaginu. Við erum vongóð um að sterk staða félagsins og góð rekstrarsaga freisti almennra fjárfesta,“  segir hann.