Gengi hlutabréfa þýska greiðslufyrirtækisins Wirecard var í meira en 100 evrum fyrir viku. Bréfin hafa síðan fallið um meira en 85% eftir að félagið frestaði útgáfu ársreiknings 2019 í fjórða sinn og tilkynnti að 1,9 milljarðar evra væru týndir .

Adithya Metuku, greinandi Bank of America, telur að virði hlutabréfa Wirecard í dag sé einungis ein evra á hlut, en þetta kemur fram í frétt Bloomberg . „Nýlegar fréttir gefa til kynna að viðskiptavinir okkar séu farnir að yfirgefa Wirecard og lánveitendur gætu verið að íhuga að loka á lánalínur til fyrirtækisins,“ segir Metuku í bréfi sem var sent til viðskiptavina bankans í gær.

Sjá einnig: Fyrrum forstjóri Wirecard handtekinn

Lánveitendum Wirecard var heimilt að rifta 1,75 milljarða evra lánalínu til Wirecard þar sem félagið náði ekki að birta endurskoðaðan ársreikning fyrir lok síðustu viku. Þýska fjártæknifyrirtækinu var veitt frestur á skilmálunum eftir að lánveitendur ákváðu að meta langtíma lífvænleika fyrirtækisins áður en frekari ákvörðun yrði tekin. Bank of China, sem er í hópi lánveitenda, er að íhuga að rifta lánum fyrirtækisins samkvæmt heimildum Bloomberg .

Ráðgjafarfyrirtækið FTI Consulting vaktar fylgni Wirecard við lánaskilmála á meðan lánaveitendur rannsaka skjöl og eiga í samskiptum við hagaðila líkt og Visa og Mastercard til þess að ákveða hvernig best sé að sækja sem hæstu endurgreiðslu. Búist er við því að frestur lánveitenda muni einungis vara í stuttan tíma áður en lokaákvörðun er tekin, er haft eftir heimildarmönnum Bloomberg.

Ýmsir viðskiptavinir líkt og leigubílafyrirtækið Grab Holdings frá Singapúr hafa fjarlægt sig frá Wirecard sem flækir bata fyrirtækisins.