Velta fjármálastofnana með afleiður hlutabréfa á Íslandi hefur meira en tvöfaldast á síðastliðnum tveimur árum.

Velta með afleiður skuldabréfa hefur hins vegar lækkað stöðugt undanfarin fjögur ár og er hún orðin minni en velta með hlutabréfaafleiður. Heildarvelta með hlutabréfaafleiður nam 358,7 milljörðum króna árið 2016 en 206,6 milljörðum með skuldabréfaafleiður. Heildarviðskipti með verðbréfaafleiður voru því tæplega 566 milljarðar árið 2016, sem er rúmlega 45% veltuaukning frá árinu 2014.

Verðbréfaafleiðurnar eru að meirihluta einfaldir framvirkir samningar og skiptasamningar til skamms tíma. Framvirkir samningar fela í sér skuldbindingu samningsaðila til að eiga viðskipti um tiltekna undirliggjandi eign á ákveðnum degi í framtíðinni á fyrirfram ákveðnu verði. Framvirkir samningar með skuldabréf hafa þó farið dvínandi frá árinu 2012. Í skiptasamningum skiptast aðilar á mismunandi greiðsluflæðum yfir ákveðið tímabil í framtíðinni.

Lítið sem ekkert var um valréttarsamninga frá árinu 2012 þar til í október á síðasta ári, en hlutdeild þeirra á afleiðumarkaði er þó lítil. Ólíkt framvirkum samningum fela þeir í sér val um það hvort af viðskiptunum verði eða ekki.

Um 87% af afleiðusamningum hlutabréfa og 78% af afleiðusamningum skuldabréfa eru með eftirstöðvatíma skemmri en einn mánuð. Slíkum skammtímasamningum hefur fjölgað frá 2012 en nokkuð hefur dregið úr samningum sem eru einn til þrír mánuðir og svo þrír til tólf mánuðir.

Úr 9,6 milljörðum í 569 milljónir

Heildarsamningsverð verðbréfaafleiðna lækkaði árið 2016 úr rúmlega 55 milljörðum í 34 milljarða eftir að hafa hækkað frá 2014. Virði skuldabréfaafleiðna hefur verið í lækkunarhrinu frá árinu 2012. Nettó staða kaupsamninga og sölusamninga með hlutabréf, þ.e. markaðsvirði kaupsamninga umfram sölusamninga, lækkaði talsvert árið 2016. Nettó-staðan var 9,6 milljarðar í byrjun ársins en aðeins 569 milljónir í lok þess. Nettó staða kaupsamninga og sölusamninga með með skuldabréf hefur sveiflast á bilinu 6,9 milljarðar og -4,4 milljarðar undanfarin fjögur ár, en hún var jákvæð um 2,4 milljarða í lok síðasta árs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .