*

mánudagur, 6. desember 2021
Erlent 17. ágúst 2020 18:27

Hlutabréfaapp metið á 11 milljarða dali

Notendafjöldi Robinhood, sem fór í loftið árið 2015, jókst um þrjár milljónir á fyrsta fjórðungi ársins.

Ritstjórn
Vlad Tenev, annar stofnenda Robinhood
epa

Robinhood, smáforrit fyrir viðskipti hlutabréfa án þóknana, er metið á 11 milljarða dollara, eða um 1.500 milljarða króna, miðað við söluverð hlutabréfa í nýlegum viðskiptum. Virði félagsins hefur hækkað um nærri þriðjung samanborið við hlutafjáraukningu fyrir rúmum mánuði síðan, þegar fyrirtækið var metið á 8,6 milljarða dollara. Financial Times segir frá

Vogunarsjóðurinn D1 Capital Partners fjárfesti 200 milljónum dollara í Robinhood fyrr í dag. Einkafjárfestar hafa nú sett meira en 1,7 milljarða dollara í fyrirtækið síðan 2013, samkvæmt gagnaveitunni PitchBook. Sumir telja fréttirnar til marks um að fyrirtækið, sem gaf út smáforritið árið 2015, sé að undirbúa frumútboð. 

Fyrirtækið hefur notið góðs af auknum viðskiptum í faraldrinum. Notendum smáforritsins fjölgaði um þrjár milljónir á fyrsta fjórðungi ársins og eru í dag fleiri en 13 milljónir talsins. 

Vinsældir Robinhood hafa þó ekki gengið snurðulaust fyrir sig. Hópur notenda höfðaði lögsókn gegn fyrirtækinu í Kaliforníu vegna galla sem komu upp eftir gríðarlegt magn viðskipta í kjölfar lækkandi hlutabréfaverða í febrúar og mars. Fyrirtækið hætti einnig við að hefja starfsemi í Bretlandi fyrr á árinu en það var í annað skipti sem það aflýsti alþjóðlegri útrás. Árið 2015 ákvað fyrirtækið að fara ekki inn á Ástralíumarkað.

Smáforritið hefur einnig legið undir gagnrýni vegna flókinna fjármálagjörninga sem standa reynslulitlum fjárfestum til boða líkt og kaup- og söluréttir. Í júní síðastliðnum framdi Alex Kearns, tvítugur námsmaður, sjálfsvíg en hann taldi sig hafa tapað 750 þúsund dollara í afleiðuviðskiptum í gegnum forritið. Kearns misskildi hins vegar mögulegt tap á einum fjármálagjörningi og átti í raun innstæður upp á 16 þúsund dollara á reikningnum sínum.  

Stikkorð: Robinhood