*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 4. ágúst 2021 12:40

Hluta­bréfa­appið nýjasta jarm­hluta­bréfið?

Hlutabréfagengi Robinhood hefur hækkað um 55% á einni viku frá skráningu fyrirtækisins á markað.

Ritstjórn
epa

Hlutabréf Robinhood hafa hækkað um 15% á eftirmarkaði í kjölfar lokunar markaða í gær. Gengi fyrirtækisins, sem heldur úti smáforriti fyrir viðskipti hlutabréfa án þóknana, hefur nú hækkað um 55% frá dagslokagenginu á fyrsta viðskiptadegi eftir skráningu í New York kauphöllina fyrir viku síðan.

Hlutabréfaverð Robinhood lækkaði um 9% á fyrsta viðskiptadeginum og stóð þá í 34,82 dölum á hlut. Eftir hækkunina síðustu daga hefur markaðsvirði fyrirtækisins aukist um 7 milljarða dala, eða um 874 milljarða króna.  

Sjá einnig: Versti opnunardagur sögunnar

Kaup fjárfestingarsjóðs í stýringu hjá Ark Invest, sem Cathie Wood fer fyrir, í hlutabréfum Robinhood í gær eru sögð hluti af auknum áhuga á Robinhood, samkvæmt Reuters. Velta með hlutabréf Robinhood hjá almennum fjárfestum var tífalt meiri í gær en dagana á undan.

Þá var Robinhood mest umrædda hlutabréfið á Reddit spjallþræðinum WallStreetBets, sem hefur verið í hringamiðju „jarmhlutabréfa“ (e. meme stocks) hreyfingarinnar en hún hefur verið áberandi á mörkuðum vestanhafs í ár.