Þær hækkanir sem orðið hafa á hlutabréfamörkuðum víða um heim eru ekki til komnar vegna þess að fjárfestar hafa meiri trú á því að hagkerfi heimsins séu að fara að taka við sér, að mati James Mackintosh, fjárfestingaritstjóra Financial Times.

Hann bendir á að í vöruhúsum málmmarkaðarins í London liggi nú 500.000 tonn af kopar og að þetta magn hafi tvöfaldast á síðustu þremur árum. Þetta sé mesta aukning á svo stuttum tíma frá hruninu 2008. Hann segir að eftirspurn eftir kopar sé mjög nátengd framleiðslu í heiminum og því góð vísbending um það hverjar horfur séu í hinu raunverulega hagkerfi.

Vissulega hafi framleiðsla eitthvað aukist undanfarið, en það útskýri ekki lágt verð á kopar og þessa uppsöfnun birgða. Mckintosh bendir á að þau hlutabréf sem hafa hækkað minnst undanfarið eru einmitt námafyrirtæki og önnur fyrirtæki sem mikilvæg eru fyrir framleiðslu. Þau hlutabréf sem mest hafa hækkað eru fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum og þau sem framleiða nauðsynjavörur.

Hans niðurstaða er að það sem sé að ýta upp hlutabréfaverði sé aðallega minnkandi líkur á því að algert hrun verði í evrusvæðinu. Þessi áhætta hafi verið verðlögð inn í hlutabréfaverð, en nú sé verið að taka hana út. Fjárfestar séu nú að leita að betri ávöxtun en þeir geta fengið í ríkisskuldabréfum eða með því að vera með fé á innstæðureikningum. Þeir séu hins vegar ekki bjartsýnir á að nýtt hagvaxtarskeið sé skammt undan.