Verð fell á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum og Evrópu á föstudag. Dow Jones vísitalan lækkaði um 2,2% og Dax vísitalan í Frankfurt um 3,4%. Í París fell Cac vísitalan um 2,2% og FTSE 100 vísitalan í London um 1,1%. Dow Jones vísitalan hefur ekki fallið eins mikið á einum degi í sjö mánuði.

Lækkunin er meðal annars afleiðing af slæmum hagtölum sem gefnar voru út um stöðu á bandarískum vinnumarkaði í maí. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC. 69.000 ný störf voru sköpuð í Bandaríkjunum og hafa ný störf ekki verið færri síðan í maí á síðasta ári. Tölurnar í Evrópu voru heldur ekki hagstæðar en þar var atvinnuleysi 11% í apríl, það hæsta frá upphafi mælinga árið 1995.