Hlutabréfamarkaðir á meginlandi Evrópu hafa rétt aðeins úr kútnum eftir fremur lélegar heimtur í gær þegar hlutabréfaverð lækkaði talsvert eftir neikvæðar hagtölur á evrusvæðinu. Hagvöxtur á svæðinu dróst saman um 0,3% á fjórða ársfjórðungi í fyrra.  Þá bætti ekki úr skák að fjárfestar víða um heim bíða þess að Grikkir finni lausn á skuldavanda sínum. Stjórnvöld þar í landi standa frammi fyrir stórum gjalddaga í þessum mánuði.

Af einstökum hlutabréfamörkuðum má nefna að helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum lækkuðu um rúmlega 1%. Vísbendingar eru um hækkun í dag. Mestur var þó skellurinn í Rússlandi eftir uppgang í kjölfar endurkjörs Vladimírs Pútíns í forsetakosningum um helgina. Þar féllu Micex-hlutabréfavísitalan um 4,04% og og RTS-vísitalan um 4,3% í gær.

Það sem af er degi hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi hækkað um 0,17%, DAX-vísitalan í Þýskalandi hefur hækkað um 0,33% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi hækkað um 0,63%. Nikkei-vísitalan í Japan lækkaði hins vegar um 0,64% í nótt.