Gengi hlutabréfa hefur hækkað talsvert í Kauphöllinni eftir að EFTA-dómstóllinn sýknaði Ísland í Icesave-málinu í morgun.

Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur hækkað um 2,88% í viðskiptum upp á rúmar 400 milljónir króna. Það er jafnframt mesta veltan með hlutabréf í Kauphöllinni. Heildarvelta með hlutabréf nemur tæpum 900 milljónum króna.

Á sama tíma hefur gengi bréfa Eimskips hækkað um 2,81% í viðskiptum upp á tæpar 223 milljónir króna og Haga um 2,29%. Þá hefur gengi bréfa Marel hækkað um 1,99% og fasteignafélagsins Regins um 1,04%. Á sama tíma hefur gengi bréfa Vodafone hækkað um 0,45%.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,64% og stóð hún um klukkan 13 í 1.155,64 stigum.